Héraðsskólinn á Laugarvatni var stofnaður 1.nóvember 1928 og starfaði á ýmsum sviðum allt fram til ársins 1996. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni sem tókst á ótrúlegan hátt að koma góðum anda í teikningar sínar.
ónas frá Hriflu stóð fyrir byggingu Héraðsskólans á Laugarvatni. Eftir mikla pólitík og vangaveltur um hvar skólinn ætti að rísa barði Jónas í borðið og sagði: „Nú skulum við fara eftir ráðleggingum arkitektsins“ og vísaði þar í orð Guðjóns um að hvergi finndist fallegri staður og betri fyrir Héraðsskóla en á Laugarvatni.
Ingunn og Böðvar sem í daglegu tali eru nefnd „Laugarvatnshjónin“ gáfu eftir jörð sína til handa ríkinu svo draumur um menntastofnun á Laugarvatni yrði að veruleika. Böðvar átti svo sannarlega eftir að leggja sitt af mörkunum til þess að gera Laugarvatn að því mennta- og menningarsetri sem það hefur verið allar götur síðan.

Halldór Laxness
Halldór Kiljan Laxness (1902-1998) er án efa þekktasta skáld okkar íslendinga. Hann gerði sér lítið fyrir og vann sér inn eitt stykki Nóbelsverðlaun árið 1955 – eitthvað sem enginn annar íslendingur hefur leikið eftir..
Halldór eyddi mörgum stundum í gamla Héraðsskólanum sem var rekið sem hótel á sumrin. Hérna kynntist hann Auði, eiginkonu sinni, sem vann hérna sem þerna.
Halldór barði á ritvélina sína hérna sumrin í kringum 1930 og má því gera ráð fyrir að hluti sögunnar Sjálfstætt fólk hafi verið rituð hérna.
Þeir sem vilja finna kraft Halldórs geta sest niður í Héraðsskólanum í dag og slegið nokkur slög á ritvélina hans. Hún er ekki eins þægileg og iPad græjan, en hún virkar þó enn fullkomlega.
Jónas frá Hrifla
Jónas Jónsson frá Hriflu (1885-1968), var einn ótrúlegur maður sem setti mikinn lit á pólitíska sögu okkar íslendinga í byrjun síðustu aldar. Hann var ráðherra og mikill frumkvöðull á ýmsum sviðum.
Jónas átti sér draum um Laugarvatn. Hann vildi sjá Laugarvatn sem miðstöð menningar og menntunar í einu fallegasta umhverfi sem finndist á Íslandinu góða.
Það má alveg með sanni segja að honum hafi tekist ætlunarverk sitt. Jónas er steyptur í brons í dag í hlíðum Laugarvatnsfjalls, þar sem hann fylgist með okkur – vonandi með bros á vör.


Guðjón Samúelsson
Guðjón Samúelsson er án efa einn afkastamesti arkitekt í sögu heimsins. Það er alveg ótrúlegt hversu margar byggingar á Íslandi eru teiknaðar af honum. Héraðsskólinn á Laugarvatni er einn þessarra bygginga og þurfum við að minna okkur á það reglulega að ganga hér um í auðmýkt því hér göngum við um í sköpun meistara.
Við bjóðum gestum okkar í dag að setjast niður við skrifborð meistarans !
Ný ríkisstjórn í Héraðsskólanum
Sigmundur Davíð og Bjarni Ben. ákváðu að stoppa í gamla Héraðsskólanum til þess að skrifa undir stjórnarsáttmálann sumarið 2013. Þeir spurðu okkur reyndar ekki um leyfi en það er allt í góðu.
Við vonum innilega að góður andi Héraðsskólans hafi náð að læsa sig inn í sálir þeirra og komi til með að skila góðu til landsmanna. Ef andinn nær ekki inn í hjörtu þeirra komum við hvort eð er til með að dreifa friði og ást til landsmanna.
